Sunnlenskar bækur seldust vel

Sala á bókum í Bókakaffinu á Selfossi gekk vel fyrir þessi jól að sögn Elínar Gunnlaugsdóttur, bóksala. Sunnlendingar voru spenntir fyrir bók Ófeigs Sigurðssonar auk þess sem sunnlenskar bækur seldust vel.

„Þegar ég skoða heildarlistann hjá Eymundsson sýnist mér okkar vera mjög áþekkur. Arnaldur og Yrsa eru auðvitað alltaf mjög vinsæl þó þau vermi ekki toppsætið,“ segir Elín en í flokki skáldsagna seldist Öræfi eftir Ófeig Sigurðsson best.

Í flokki þýddra skáldsagna var það Ljónatemjarinn eftir Camillu Läckberg sem stóð efstur og mest selda ævisagan var Saga þeirra saga mín eftir Helgu Guðrúnu Johnson. Ljóðabækur og örsögur njóta alltaf mikilla vinsælda en í þeim flokki var það Músin sem gelti á alheiminn eftir Russel Edson í þýðingu Óskars Árna Óskarssonar sem seldist best.

Gunnar Helgason átti vinsælustu barnabókina, Gulaspjaldið í Gautaborg og af bókum almenns efnis var það Sveitin í sálinni eftir Eggert Þór Bernharðsson sem naut mestrar hylli.

Að sögn Elínar seljast sunnlenskar bækur að jafnaði mjög vel í búðinni en vinsælasta sunnlenska bókin var Gamansögur úr Árnesþingi eftir Jóhannes Sigmundsson, þar á eftir koma í þessari röð: Króníka úr Biskupstungum eftir Bjarna Harðarson, Jólasaga úr Ingólfsfjalli eftir Maríu Siggadóttur í myndskreytt af Ellisif Malmo Bjarnadóttur, 100 heilsuráð til langlífis eftir Jóhönnu S. Hannesdóttur, Á blautum skóm eftir Magnús Halldórsson og Húsið á Eyrarbakka eftir Lýð Pálsson.

Fyrri greinNýtt vegrið truflar ekki sjúkra-flutningamenn
Næsta greinHættulegar aðstæður yfirvofandi