Sunnlenska.is í klóm tyrkneskra hakkara

Skilaboðin sem blöstu við lesendum sunnlenska.is í gærkvöldi.

Fréttavefurinn Sunnlenska.is var hakkaður í gærkvöldi af tyrkneskum tölvuþrjóti. Vefurinn lá niðri í tæpar fjórtán klukkustundir.

Árásin átti sér stað klukkan 19:09 í gærkvöldi en tölvuþrjóturinn komst inn í gagnagrunn sunnlenska.is og breytti tveimur skrám. Þannig tókst honum að vísa allri umferð af sunnlenska.is yfir á sína eigin heimasíðu.

Fréttavefurinn var endurræstur í morgun eftir að skemmdu skrárnar höfðu verið uppfærðar og hefur ekki borið á neinum óþægindum í kjölfarið og ekki er um neinar skemmdir á gögnum að ræða.

Fram hefur komið í fréttum að tyrkneskir hakkarar hafa áreitt fjölda íslenskra heimasíða og vefmiðla í gær og í dag. Ástæðan ku vera þær móttökur sem tyrkneska karlalandsliðið í knattspyrnu fékk við komuna til Íslands á sunnudag.

Fyrri greinNöfn fólksins sem lést
Næsta greinAukin hætta á gróðureldum