Sunnlensk ungmenni í Starfamessu

Um fimmtánhundruð ungmenni hafa í dag sótt svokallað Starfamessu, kynningu á iðntengdum greinum og námi, sem haldin er í húsnæði Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi.

Að deginum standa Samtök sunnlenskra sveitarfélaga með aðkomu Háskólafélags Suðurlands og Atorka, félag atvinnurekenda á Suðurlandi, en verkefnið er styrkt af sóknaráætlun Suðurlands.

Um þrjátíu aðilar kynna um fjörutíu starfsgreinar og námsleiðir að þeim, en með Starfamessunni er ætlunin að vekja áhuga nemenda á iðn- og tæknitengdu námi, en líkt og víðar vantar fagmenntað fólk til starfa við ýmsar iðn- og faggreinar á Suðurlandi.

Nemendur koma víða að af Suðurlandi, en öllum skólum í héraðinu auk Vestmannaeyja var boðin þátttaka í verkefninu. Stór hluti sýningarinnar er í nýju og glæsilegu verknámshúsi FSu, sem vígt verður formlega síðar í dag að viðstöddum menntamálaráðherra.