Í vikunni fékk Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi sérlega ánægjulega heimsókn frá fyrirtækinu Marel á Íslandi. Erindið var að færa fæðingadeildinni á Selfossi ungbarnavog að gjöf, en fyrirtækið er einmitt þekkt fyrir framleiðslu á hágæða vogum.
Marel hefur haft það til siðs undanfarin ár að færa veglegar gjafir á aðventunni í þágu samfélagsins og að þessu sinni naut HSU þessarar góðu hefðar fyrirtækisins.
Vogin mælir þyngd með tveggja gramma nákvæmni og kemur með eilífðarábyrgð. Á henni er mælistika svo hægt er að mæla lengd barnanna samhliða vigtun.
Hugbúnaður vogarinnar gerir enn fremur ráð fyrir hreyfingu og því kemur ekki að sök þó börnin kunni að hreyfa sig á meðan þau eru vigtuð.
Í frétt á heimasíðu HSU segir að nýja vogin komi sér einstaklega vel en hún leysir af hólmi eldri og ónákvæmari vog.
HSU færir Marel innilegar þakkir fyrir þessa veglegu, góðu og kærkomnu gjöf sem mun í framtíðinni vigta sunnlensk ungbörn enn nákvæmar en áður.
Í fréttinni á heimasíðu HSU segir að nú séu Sunnlendingar hvattir til að fara í auknar barneignir svo þeir geti notið nýju vogarinnar og spornað við fækkun Íslendinga í leiðinni.