Sunnlensk sumarhús vinsæl meðal erlendra ferðamanna

Mikil aukning hefur orðið á bókunum sumarhúsa hjá erlendum ferðamönnum. Að sögn Hauks Guðjónssonar hjá Búngaló er Suðurland langvinsælasta svæðið með 44% af öllum bókunum.

Haukur segir að um 60% viðskiptavina fyrirtækisins séu erlendir en Búngaló sér um að aðstoða íslenskar fjölskyldur við að leigja út sumarhús sín. Þess má geta að þegar vefsíða Búngaló fór í loftið árið 2010 voru viðskiptavinirnir nær eingöngu íslenskir.

„Erlendir ferðamenn eru áhugasamir um að gista í íslenskum sumarhúsum og kynnast þannig íslenskri náttúru og menningu,“ segir Haukur. „Búngaló hefur nú slegið eigið sölumet fjóra mánuði í röð og stefnir í fimmta sölumetið í maí. Salan hefur aukist að meðaltali um 13% í hverjum mánuði og hefur meira en þrefaldast frá sama tímabili í fyrra,“ segir Haukur.

Fjölmörg sumarhús eru til leigu á vefsíðu Búngaló. Mörg þeirra eru bókuð í allt sumar. „Mikill áhugi er á að taka sumarhús til leigu í skemmri tíma. Það skapar tækifæri fyrir sumarhúsaeigendur til að leigja þau út þegar fjölskyldur þeirra eru ekki að njóta sveitasælunnar. Þannig má afla auka tekna sem getur komið sér vel, til að mynda við að mæta útgjöldum vegna sumarhússins. Útleigan hefur gengið vel og fólk gengið snyrtilega um sumarhúsin,“ segir Haukur að lokum.


Haukur Guðjónsson, framkvæmdastjóri Búngaló.

Fyrri greinÚlfur og Egill Íslandsmeistarar
Næsta greinÆfðu hraðamælingar úr þyrlu