Sunnlendingur á Íslandsmetið í langlífi

Skaftfellingurinn Sólveig Pálsdóttir hefur náð hæstum aldri þeirra sem fæðst hafa á Íslandi og átt hér heima alla ævi. Þetta kemur fram á Facebooksíðunni Langlífi.

Sólveig var fædd á Keldunúpi á Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu í ágúst 1897, fór á níunda ári í Öræfin og bjó þar lengst af en lést á Höfn í Hornafirði í október 2006, orðin rúmlega 109 ára.

Aðeins einn Íslendingur hefur orðið eldri, Guðrún Björg Björnsdóttir frá Vopnafirði, en hún flutti til Vesturheims þegar hún var á fimmta ári og lést þar, tæplega 110 ára. Segja má að Guðrún eigi Íslendingametið en Sólveig Íslandsmetið.

Lovísa Bjargmundsdóttir hefur orðið elst þeirra sem fæðst hafa í Árnessýslu og Helga Brynjólfsdóttir elst Rangæinga, báðar 106 ára. Af þeim sem fæðst hafa í Vestmannaeyjum hefur Margrét Halldórsdóttir náð hæstum aldri en hún varð 103 ára. Elín Jónasdóttir, sem lést í fyrradag, er í fimmta sæti yfir elstu Rangæingana en enginn þeirra sem fæðst hafa undir Eyjafjöllum hefur orðið eldri en hún.

Nú eru á lífi rúmlega fjörutíu Íslendingar sem náð hafa hundrað ára aldri, þar af eru ellefu Sunnlendingar, auk tveggja sem hafa lengi búið á Suðurlandi en fæddust annars staðar. Af þessum ellefu eru Árnesingarnir Hlíf Böðvarsdóttir og Jón Magnússon elst, bæði 103 ára.

elstusunnlendingar_langlifi_745806673.jpg
Fyrri greinÖruggt hjá Selfossi gegn botnliðinu
Næsta greinLummósveit Lýðveldisins leikur á þorranum