Sunnlendingum fjölgar langt umfram landsmeðaltal

Hveragerði. Ljósmynd/Mats Wibe Lund

Íbúum á Suðurlandi fjölgaði um 1.009, eða 4,1%, árið 2021 en þann 1. janúar síðastliðinn var samanlagður mannfjöldi í Árnes-, Rangárvalla og V-Skaftafellsýslum 25.573 manns.

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands var mesta tölulega fjölgunin í Árborg en mesta hlutfallslega fjölgunin var í Hveragerðisbæ.

Íbúum Árborgar fjölgaði um 382, eða 3,7% og voru þeir 10.834 þann 1. janúar síðastliðinn. Í Hveragerði og Mýrdalshreppi var 7,4% fjölgun en aukningin í Hveragerði er sú langmesta á landsvísu hjá stærstu sveitarfélögunum. Hvergerðingum fjölgaði um 206 og í Mýrdalshreppi fjölgaði um 56 manns.

Þá varð talsverð fjölgun í Ölfusinu, þar sem fjölgaði um 112 íbúa eða 4,7% og í Grímsnes- og Grafningshreppi fjölgaði um 22 íbúa eða 6,7%. Þá fjölgaði um 70 íbúa í Rangárþingi ytra, eða 4,0%. Einnig fjölgaði íbúum í Skaftárhreppi og Rangárþingi eystra umfram landsmeðaltal og lítilsháttar fjölgun varð einnig í Bláskógabyggð og Flóahreppi.

Fækkun í þremur sveitarfélögum
Í þremur sveitarfélögum á Suðurlandi fækkaði íbúum árið 2021. Mesta tölulega fækkunin var í Skeiða- og Gnúpverjahreppi en þar fækkaði um 14 íbúa, eða -2,4%. Mesta hlutfallslega fækkunin var í Ásahreppi þar sem fækkaði um 10 manns eða -3,7%. Einnig varð lítilsháttar fækkun í Hrunamannahreppi.

Íbúum á Íslandi fjölgaði um 7.456 á liðnu ári, eða um 2,0%. Fjölgunin á Suðurlandi er því langt umfram landsmeðaltal og sé horft á landshlutana alla er langmesta hlutfallslega fjölgunin á Suðurlandi.

Heimild: Hagstofa Íslands.

Fyrri greinÖlvaður ökumaður lenti utan vegar
Næsta greinVirkilega góð liðsframmistaða