Sunnlendingum fækkar um 0,4%

Sunnlendingum fækkaði um 79 eða 0,4% frá 1. desember 2009 til 1. desember 2010. Mesta tölulega fækkunin er í Mýrdalshreppi þar sem íbúum fækkaði um 37.

Hagstofan hefur nú birt íbúatölur í sveitarfélögum þann 1. desember sl. Í tölum sem sunnlenska.is les úr eru tekin saman sunnlensk
sveitarfélög, utan Hornafjarðar og Vestmannaeyja.

Sunnlendingar voru 19.752 í fyrra en nú eru þeir 19.673.

Íbúum fækkar í sjö sveitarfélögum, mest í Mýrdalshreppi, um 37 eða 7,2%. Íbúum Grímsnes- og Grafningshrepps fækkar um 3,4% og Skeiða- og Gnúpverjahrepps um 2,9%

Mesta tölulega fjölgunin er í Hveragerði þar sem fjölgar um 15 íbúa eða 0,7%. Mesta prósentufjölgunin er í Ásahreppi eins og svo oft áður en þar fjölgar um fjóra íbúa, eða 2,1%, og eru íbúar hreppsins nú 194.

Í Rangárvallasýslu fækkar íbúum um sex og eru íbúar þar nú 3.289. Íbúum fjölgar um níu í Rangárþingi eystra en fækkar um fimmtán í Rangárþingi ytra.

Vestur-Skaftfellingum fækkar hinsvegar töluvert en það var eina svæðið á Suðurlandi þar sem íbúum fjölgaði milli áranna 2008 og 2009. Í Mýrdalshreppi og Skaftárhreppi fækkar samtals um 40 manns og búa nú 921 í sýslunni eða um 4,2%.

Íbúafjöldi í sunnlenskum sveitarfélögum 1. desember 2010:
Sveitarfélagið Árborg 7818
Hveragerði 2317
Sveitarfélagið Ölfus 1909
Rangárþing eystra 1753
Rangárþing ytra 1530
Bláskógabyggð 942
Hrunamannahreppur 793
Flóahreppur 591
Skeiða- og Gnúpverjahreppur 504
Mýrdalshreppur 474
Skaftárhreppur 447
Grímsnes- og Grafningshreppur 401
Ásahreppur 194

SAMTALS 19.673

ATHUGASEMD RITSTJÓRA: Mannfjöldafrétt sunnlenska.is sem birtist fyrr í dag var byggð á röngum tölum en hefur nú verið leiðrétt. Sunnlendingar nær og fjær eru beðnir afsökunar á þessari handvömm. Vonandi eiga allir gleðileg jól þrátt fyrir þetta.

Fyrri greinUnnið að uppsteypu
Næsta greinÍhugar skaðabótamál gegn sýslumanni