Sunnlendingum boðið í kjötsúpu

Matreiðslumenn við Skólavörðustíg eru í óða önn að undirbúa Kjötsúpudaginn, sem haldinn er hátíðlegur fyrsta vetrardag ár hvert. Sunnlendingar og aðrir nærsveitamenn eru velkomnir á Skólavörðustíginn.

Þetta er í tólfta sinn sem Samtök kaupmanna á Skólavörðustíg fagna vetrarkomu með þessum hætti og alls verða 1.000 lítrar af súpu á boðstólum fyrir gesti og gangandi. Í dag þjófstörtuðu menn og fengu sér aðeins að smakka og buðu gestum að bragða á súpunni. Þeir Gústav Axel Gunnlaugssson á Sjávargrillinu og Stefán Úlfarsson frá Þremur frökkum stilltu sér upp á Skólavörðustígnum til þess að minna gesti og gangandi á Kjötsúpudaginn á morgun, laugardag.

Alls verður boðið upp á kjötsúpu á fimm stöðum á Skólavörðustígnum og það eru margir af fremstu matreiðslumönnum landsins sem gefa vinnu sína á þessum degi. Líkt og venjan hefur verið undanfarin ár mun Úlfar Eysteinsson ausa á fyrstu diskana fyrir fanga Hegningarhússins á Skólavörðustíg.

Dagskráin hefst kl. 14.00 og stendur fram til kl. 16. Boðið er upp á fjölda skemmtatriða víðs vegar um Skólavörðustíg, meðal annars mun Steindór Andersen kvæðamaður flytja rímur í verslun Eggerts feldskera. Strax að loknum hátíðahöldum á Skólavörðustígnum verður keppt í hrútaþukli á veitingastaðnum KEX við Skúlagötu. Guðmundur Jörundsson fatahönnuður verður einn þeirra sem mun spreyta sig í KEXþuklinu.

Fyrri greinUndirbúa aðgerðir vegna verkfallsboðunar
Næsta greinKirkjan selur jarðir og prestssetur