Sunnlendingar stefna á ULM

Um áttatíu keppendur af Suðurlandi munu taka þátt í Unglingalandsmóti UMFÍ sem fram fer á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina.

Ungmennasamband V-Skaftfellinga sendir 26 keppendur til leiks auk þess sem klappstýruhópurinn úr Umf. Kötlu verður með sýningaratriði á laugardeginum.

USVS er með fótboltalið í flokki drengja 15-16 ára og sameiginlegt lið með Dalamönnum í flokki 11-12 ára stráka. Þá eru keppendur í ýmsum greinum frjálsra íþrótta og einnig í einstaklingskeppni í fótbolta. Hópurinn sem að fer frá USVS telur í allt um70 manns.

Héraðssambandið Skarphéðinn sendir um fimmtíu keppendur til leiks og er það töluvert færra en á síðasta móti í Borgarnesi þar sem skráningar frá HSK voru um það bil eitthundrað.

Flestir Skarphéðinskrakkarnir keppa í frjálsum íþróttum og eru margir keppendur að mæta á sitt fyrsta mót. HSK er einnig með fótboltalið stelpna 11-12 ára og 13-14 ára og stráka 15-16 ára.

Guðrún Tryggvadóttir, hjá HSK, sagði í samtali við sunnlenska.is að það stefndi í töluvert minna mót en í Borgarnesi í fyrra. Skráningar í ár eru nú um 1.100 en voru 1.700 í Borgarnesi. Guðrún telur bensínverð spila þarna stóran þátt þar sem um lengra ferðalag er að ræða hjá stærstum hluta keppenda.

Hægt verður að fylgjast með framgangi mótsins á www.ulm.is þar inn koma úrslit í lok hvers keppnisdags.