Sunnlendingar stefna á Perlubikarinn

Miðvikudaginn 20. júní ætla Sunnlendingar, Héraðssambandið Skarphéðinn og aðildarfélög þess að taka höndum saman og perla af krafti fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra.

Viðburðurinn verður haldinn í Fjallasal Sunnulækjarskóla á Selfossi miðvikudaginn 20. júní nk. frá klukkan 16:00 til 20:00.

Núna skiptir máli að sem flestir mæti á svæðið og leggi hönd á plóg við að ná Perlubikarnum til Sunnlendinga. Perlubikarinn er keppni milli sveitarfélaga/íþróttafélaga þar sem keppst er við að perla sem flest armbönd á fjórum tímum.

Vestmannaeyingar hófu keppnina en Akureyringar náðu bikarnum af þeim með því að perla 2.302 armbönd. Austfirðingar reyndu við metið en náðu því ekki en eru þó í öðru sæti með 1.673 armbönd. Austfirðingar skoruðu því á Sunnlendinga, HSK og aðildarfélög að gera betur og ná bikarnum af Akureyringum.

Armböndin sem um ræðir eru í fánalitunum og eru þau seld til stuðnings Krafti, stuðningsfélagi ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum og sýna þau einnig samstöðu með íslenska fótboltaliðinu á HM.

Þetta er skemmtileg stund fyrir alla fjölskylduna og tilvalið tækifæri að láta gott af sér leiða og skapa enn meiri stemningu og eftirvæntingu fyrir leik Íslendinga á móti Nígeríu á föstudaginn.

Armböndin eru til sölu á viðburðinum og á vefsíðu Krafts en allur ágóði af armböndunum rennur til Krafts.

Facebooksíða viðburðarins

Fyrri greinEydís áfram sveitarstjóri í Flóahreppi
Næsta greinÞrjú rauð á loft í tapi Ægis