Sunnlendingar sitji við sama borð og aðrir

Sveitarstjórnarfólk á Suðurlandi segir andstöðu almennings við vegtolla ekki þurfa að standa nauðsynlegum vegaframkvæmdum fyrir þrifum.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði að loknum fundi með aðilum vinnumarkaðarins í gær að sökum andstöðu almennings og atvinnurekenda væru ekki forsendur til að ráðast í stórframkvæmdir á grundvelli vegtolla.

Í Fréttablaðinu í dag er rætt við Aldísi Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra í Hveragerði, og segir hún ótrúlegt að ekki skuli enn vera hafnar framkvæmdir við Suðurlandsveg.

„Það má áfangaskipta þessu meira en hingað til hefur verið ráðgert og hefja þannig framkvæmdir strax, þrátt fyrir að þær muni taka lengri tíma. Það má svo bæta því við að vegfarendur borga í dag háar upphæðir til ríkisins, til dæmis í formi eldsneytisskatta, sem fara að stóru leyti í aðra málaflokka.“

Aldís segir „órofa samstöðu“ meðal sveitarstjórnarfólks á Suðurlandi um að íbúar svæðisins skuli sitja við sama borð og aðrir landsmenn hvað varðar fjármögnun nauðsynlegra vegaframkvæmda.

„Það er skilyrðislaus krafa okkar. Að öðrum kosti hljótum við að gera ráð fyrir því að allar vegaframkvæmdir á Íslandi verði héðan í frá fjármagnaðar með vegtollum, hvort sem um er að ræða innanbæjar í Reykjavík, yfir Hellisheiðina, eða hvar sem er á landinu.“

Fréttablaðið greindi frá þessu.

Fyrri greinTilkynntir týndir tveimur dögum fyrr
Næsta greinVeikur ferðamaður braust inn