Sunnlendingar leita á Snæfellsnesi

Hvergerðingar á leið í útkall í kvöld. Ljósmynd/HSSH

Um 200 björgunarsveitarmenn hafa verið kallaðir út til leitar að karlmanni á Snæfellsnesi.

Lögregla óskaði eftir aðstoð björgunarsveita um klukkan sex í kvöld en leitað er að manninum nálægt Eldborg á suðaustanverðu Snæfellsnesi. Maðurinn fór í fjallgöngu á svæðinu og hefur ekki skilað sér til baka.

Fljótlega var óskað eftir fleira fólki til leitar og kallaðar út sveitir allt frá Blönduósi og austur í Árnessýslu. Nú eru tíu manns og einn leitarhundur frá Björgunarsveitinni Björg á Eyrarbakka á leið á vettvang og annar leitarhundur kemur frá Hjálparsveit skáta Hveragerði auk sex manns þaðan á tveimur bílum. Björgunarfélag Árborgar sendi fimm manns á einum bíl til leitar og tveir liðsmenn Hjálparsveitarinnar Tintron í Grímsnesi eru einnig á leiðinni vestur.

Fyrri greinÞrír fluttir með þyrlu á sjúkrahús
Næsta greinSr. Arnaldur eini umsækjandinn