Sunnlendingar kunna að meta að fá heimsendan fisk

Fisherman er fyrirtæki á Suðureyri við Súgandafjörð sem hóf nýverið að bjóða upp á heimsendan fisk um allt land. Vörurnar frá þeim hafa slegið í gegn hjá Sunnlendingum sem virðast vera sérlega sólgnir í fisk um þessar mundir.

„Í nokkur ár höfum við verið að þjónusta fyrirtæki og stofnanir með því að senda þeim fisk og fiskafurðir. Íslendingar vilja borða fisk og almenna reglan er að fiskur sé í boði a.m.k. tvo daga vikunnar hvort sem það er á heimilum, í fyrirtækjum, stofnunum eða skólum,“ segir Elías Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fisherman, í samtali við sunnlenska.is.

Elías segir að þar sem Fisherman var nú þegar byrjað að bjóða upp á heimsendingu til fyrirtækja þá vildu þau geta boðið öllum upp á heimsendan fisk, óháð því hvort viðskiptavinurinn væri fyrirtæki eða einstaklingur.

„Vörur Fisherman eru nú líka fáanlegar í helstu stórmörkuðum og samhliða því höfum við hægt og sígandi fundið fyrir áhuga almennings á að geta pantað vöruna sjálft og fengið sent heim að dyrum,“ segir Elías.

Fólk meðvitað um að borða hollt í covid
Elías segir að viðtökurnar hafi verið mjög ánægjulegar. „Salan eykst hægt og sígandi og eins og flestir vita þá var töluverð veltuaukning í netsölu í fyrstu bylgju Covid. Núna finnum við svo sannarlega aftur fyrir aukningu. Almenningur þekkir hollustugildi fisks og það virðist vera sem að fólk vilji huga að heilsunni og borða íslenska, holla og hreina fæðu í þessu ástandi. Við finnum líka fyrir aukningu í netverslun á landsbyggðinni og sér í lagi hér á Suðurlandi en þar kann fólk að meta það að fá fisk sendan heim að dyrum,“ segir Elías.

Elías Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fisherman. Ljósmynd/Aðsend

Fiskurinn sívinsæll hjá Ísbílnum
„Síðastliðin ár höfum við einnig verið í samstarfi við Ísbílinn sem keyrir um landið og það eru kannski ekki allir sem vita það en í Ísbílnum er hægt að fá frosinn fisk frá Fisherman, fiskihakkbollur, humar, þorsk í tempura og fleira í svokölluðum smartboxum sem smellpassa í frystinn. Þetta veit fjöldi manna úti á landsbyggðinni sem hleypur til og kaupir fisk og ís þegar það heyrir í bjöllunni.“

Sérstök box sem halda fisknum frosnum alla leið
Einhver spyr sig eflaust hvernig það virkar að panta frosinn fisk þannig að hann haldist frosinn alla leið heim að dyrum. Elías segir að fiskurinn sé í sérstökum boxum sem kallast smartbox.

„Með tilkomu smartboxa er ekkert mál að panta frosinn fisk frá Fisherman í gegnum vefverslun okkar og fá hann sendan heim að dyrum. Smartboxin vernda vöruna, allt frá vinnslunni okkar á Vestfjörðum og heim til kaupandans, hvar sem hann er á landinu,“ segir Elías.

„Smartbox Fisherman eru hönnuð til að koma í veg fyrir að íshröngl myndist á fiskinum og því er óþarfi að íshúða hann í framleiðslu sem minnkar vatnsmagn í vörunni. Fiskurinn er lausfrystur þannig að það er ekkert mál að taka bara það magn sem þú þarft hverju sinni og geyma restina í hentugum kassa sem passar í öll frystihólf. Þannig tryggir smartboxið hámarksgæði og kemur í veg fyrir matarsóun. Með því að loka bæði smartboxinu og pokanum sem er í honum vel, geymist fiskurinn í frysti í heilt ár.“

„Allur fiskur í smartboxunum er tilbúinn til matreiðslu. Það þarf bara að kippa honum úr frysti, setja í ofninn, pottinn eða á pönnuna og elda sem hentar nútímafólki sem vill stuðla að því að fjölskyldan fái gómsætan og kjarngóðan kvöldverð á mettíma,“ segir Elías.

Fiskihakkbollurnar sívinsælar
Að sögn Elíasar hafa fiskihakkbollur eins og amma gerir alltaf verið vinsælastar hjá þeim. „Svo er hangireyktur lax og heitreyktur lax að koma sterkur inn en hann er frábær sem millimál og hentar einstaklega vel fyrir fólk sem er í Ketó mataræði. Að auki erum við að bjóða töluvert úrval af ferskum fiski, forelduðum fiskréttum, reyktum og gröfnum lax og silung, sósur sem henta með fiskinum og margt fleira. Hægt er að skoða fjölbreytt úrval á vefverslun Fisherman,“ segir Elías að lokum.

Fyrri grein„Alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt“
Næsta greinNíu manns sagt upp á Þingvöllum