Sunnlendingar komnir yfir 21 þúsund

Sunnlendingum fjölgaði um 2,5% á síðasta ári og eru komnir yfir 21 þúsund í fyrsta sinn, voru 21.049 í árslok 2016. Fjölgun varð í öllum sveitarfélögum á Suðurlandi nema tveimur.

Hagstofan hefur gefið út tölulegar upplýsingar um fjölda landsmanna þann 1. janúar 2017. Í samantekt sunnlenska.is eru taldir íbúar í Árnessýslu, Rangárvallasýslu og V-Skaftafellssýslu.

Íbúum fjölgaði í öllum sveitarfélögum Suðurlands á síðasta ári, nema í Rangárþingi eystra og Hrunamannahreppi. Í Rangárþingi eystra fækkaði annað árið í röð um 22 íbúa, nú um -1,2%. Hrunamönnum fækkaði um 34, eða -4,2%.

Mesta fjölgunin var hins vegar í Ásahreppi, þar sem íbúum fjölgaði um 17,4%. Íbúar Ásahrepps voru 256 þann 1. janúar sl. og hafði fjölgað um 38 árið 2016.

Einnig var mikil fjölgun í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, þar sem íbúum fjölgaði um 14%. Skeiðamenn og Gnúpverjar voru 594 þann 1. janúar sl. og fjölgaði um 73 á síðasta ári. Skeiða- og Gnúpverjahreppur endurheimtir 9. sætið yfir fjölmennasta sveitarfélagið á Suðurlandi og fer uppfyrir Mýrdalshrepp.

Mesta tölulega fjölgunin var eins og áður í Árborg. Þar fjölgaði íbúunum um 265, eða 3,2%. Þessi fjölgun er talsvert meiri en á síðustu árum. Íbúar Árborgar voru 8.471 síðastliðinn nýársdag.

Ölfusingar rufu 2.000 íbúa múrinn á síðasta ári og voru 2.005 í ársbyrjun og Bláskógabyggð rauf 1.000 íbúa múrinn, þar voru íbúarnir 1.026 talsins þann 1. janúar.

Alls fjölgaði íbúum Suðurlands um 520 á árinu 2015. Fjölgunin á Suðurlandi er 2,5%, sem er vel umfram landsmeðaltal. Landsmönnum fjölgaði alls um 1,8% og voru Íslendingar búsettir á landinu 338.349 talsins um síðustu áramót.

Íbúafjöldi í sunnlenskum sveitarfélögum 1. janúar 2017:
Sveitarfélagið Árborg 8.471
Hveragerði 2.483
Sveitarfélagið Ölfus 2.005
Rangárþing eystra 1.752
Rangárþing ytra 1.537
Bláskógabyggð 1.026
Hrunamannahreppur 773
Flóahreppur 648
Skeiða- og Gnúpverjahreppur 594
Mýrdalshreppur 562
Skaftárhreppur 475
Grímsnes- og Grafningshreppur 467
Ásahreppur 256
SAMTALS 21.049