Sunnlendingar duglegir að versla í heimabyggð

„Jólaverslunin hefur gengið mjög vel og erum við að sjá örlitla aukningu frá því í fyrra,“ segir Ásta Björg Kristinsdóttir, eigandi verslunarinnar Motivo á Selfossi.

„Sunnlendingar eru orðnir mjög duglegir að versla í heimabyggð enda er vöruúrvalið hér á Selfossi alltaf að aukast og það styrkir alla verslun hér á svæðinu,“ segir Ásta.

Bylgja Þorvarðardóttir, verslunarstjóri hjá Sportbæ á Selfossi, tekur í sama streng. „Við erum uppfullar af þakklæti fyrir það hvað Sunnlendingar ásamt fólkinu hér í kringum okkur kemur og verslar hjá okkur. Það er mikil vakning hjá fólki að versla í heimabyggð,“ segir Bylgja.

Elín Gunnlaugsdóttir, eigandi Bókakaffins á Selfossi, segir að veðrið hafi alltaf einhver áhrif á jólaverslunina. „Fólk sleppur við að fara yfir Heiðina ef það kaupir bækurnar hjá okkur en við erum með mjög gott úrval af bókum og sérpöntum ef þarf. Þeir sem vilja hafa eitthvað að velja úr koma því til okkar og svo eru alltaf þeir sem vilja kaupa sína bók í bókabúð. Margir koma svo ekki bara til að kaupa bækur heldur bara til að koma og fá sér kakó og hafa það huggulegt á aðventunni,“ segir Elín.

Hugurinn á bak við gjöfina skiptir mestu máli
Aðspurð segir Elín segir að vinsælustu bækurnar séu yfirleitt sunnlensku bækurnar. „Vinsælasta bók haustsins er svo bókin Vörubílstjórar á vegum úti, rituð af Önnu Rósu Róbertsdóttur. Vinsælasta skáldsagan er Spámennirnir í Botnleysufirði eftir Kim Leine og vinsælasta barnabókin er Mamma klikk eftir Gunnar Helgason.“

Í Sportbæ hafa hlýjar úlpur verið vinsælar í jólapakkann. „Vinsælast í ár eru úlpurnar frá Cintamani sem heita EyþórElsa og Elna, ásamt íþróttafatnaði sem er nú mikið í tísku enda þægilegur og flottur fatnaður bæði í hreyfingu eða hversdags,“ segir Bylgja

Að sögn Ástu í Motivo er iittala ennþá vinsælasta vöruverkið hjá þeim. „Iittala eru alltaf að koma með eitthvað nýtt og spennandi. Svo eru þeir með mjög breitt vöruúrval ásamt tímalausri og klassískri hönnun. Ég vil samt meina að það sem skiptir mestu máli við val á jólagjöf er hugurinn á bak við gjöfina. Það á að vera vinsælasta jólagjöfin,“ segir Ásta að lokum.

Fyrri greinDregið í jólahappdrætti unglingaráðs
Næsta greinGrímur valinn efnilegasti júdómaðurinn