Sungið á tvíbreiðri brú yfir Steinavötn

Kvennakór Hornafjarðar söng við athöfnina. Kórinn hefur tekið lagið á öllum einbreiðum brúm á svæðinu til að styðja við fækkun þeirra. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, opnuðu í gær með formlegum hætti fjórar nýjar brýr á Hringveginum sunnan Vatnajökuls.

Þetta eru brýr yfir Steinavötn, Fellsá, Kvíá og Brunná en með tilkomu þeirra leggjast af fjórar einbreiðar brýr á Hringveginum og fækkar úr 36 brúm í 32. Bygging brúanna var boðin út árið 2019 en framkvæmdum lauk í ár.

Forgangsmarkmið að fækka einbreiðum brúm
„Ég hef í ráðherratíð minni lagt mikla áherslu á að fækka einbreiðum brúm til að auka umferðaröryggi, jafnt fyrir landsmenn og erlenda gesti sem eru óvanir íslensku vegakerfi. Þessi áhersla birtist með skýrum hætti í gildandi samgönguáætlun en eitt af forgangsmarkmiðum hennar er að fækka einbreiðum brúm á umferðarmestu vegum landsins. Alls er áformað að verja hátt í 6 milljörðum króna til að fækka einbreiðum brúm í vegakerfinu á næstu árum,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við opnunarathöfn Vegagerðarinnar í ávarpi við opnunina, sem fram fór á brúnni yfir Steinavötn.

Fækkar enn frekar á næstu árum
Einbreiðum brúm mun fækka meira á næstu árum. Vinna er þegar í gangi við Jökulsá á Sólheimasandi og við Núpsvötn og Hverfisfljót og að þeim framkvæmdum loknum verða einbreiðar brýr 29 talsins á Hringveginum. Þegar Hringvegurinn verður færður og styttur með nýrri brú yfir Hornafjarðarfljót fækkar þeim um þrjár til viðbótar. Útboðsferli vegna framkvæmda við Hornafjarðarfljót stendur yfir en niðurstöður munu liggja fyrir um næstu áramót og framkvæmdir hefjast á næsta ári. Þá eru áform um að framkvæmdir við fimm brýr til viðbótar fari af stað fyrir árið 2024.

Opnunarathöfn Vegagerðarinnar var haldin á nýrri brú yfir Steinavötn en auk hennar voru formlega opnaðar brýr yfir Fellsá, Kvíá og Brunná. Ljósmynd/Stjórnarráðið
Fyrri greinMílan og Selfoss úr leik í bikarnum
Næsta greinÆgismenn misstigu sig á heimavelli