Sundlauginni færð gjöf á afmælisdegi Lárusar Rist

Í dag, 19. júní, eru 134 ár síðan Lárus Rist, sundkennari, fæddist en hann kom til Hveragerðis frá Akureyri árið 1936. Óttar Guðmundsson afabarn Lárusar kom í tilefni afmælisins og færði Sundlauginni Laugaskarði gjöf, höggmynd af Lárusi Rist sem Ríkharður Jónsson hannaði.

Jóhanna M. Hjartardóttir, menningar- og frístundafulltrúi, tók við gjöfinni en faðir hennar Hjörtur S. Jóhannsson tók við forstöðu sundlaugarinnar þegar Lárus lét af störfum árið 1946 og starfaði til dauðadags árið 1985.

Lárus J. Rist gekk í Ungmennafélag Ölfusinga og varð fljótlega mikilvirkur í félagsstarfinu. Hann var stórhuga og setti sér það markmið að í Hveragerði skyldi byggð vegleg sundlaug, stærsta sundlaug landsins.

Nú eru 75 ár síðan vatni var hleypt í sundlaugina í fyrsta sinn. Þá var sundlaugin 12 x 25 m. Menn héldu áfram uppbyggingu og árið 1945 var komin 50 m löng sundlaug með steyptum botni og var þá lengsta sundlaug landsins.

Strax og vatn var komið í laugina hófst sundkennslan og var Lárus aðalsundkennarinn næstu árin. Um 500 börn og unglingar voru árlega við nám og æfingar í sundlauginni. Langflest voru þau úr Hveragerði og nærliggjandi sveitum en fyrstu árin komu einnig börn til sundnáms frá Suðurnesjum, víðsvegar af Suðurlandi og austan úr Skaftafellssýslu.

Fyrri greinHægt að velja um naflahringinn, -strenginn eða -kuskið
Næsta greinEden og Bergþóra gáfu Undralandi iPad