Sundhöll Selfoss lokuð vegna viðhalds

Sundhöll Selfoss verður lokuð vikuna 2.-6. júní vegna árlegs viðhalds.

Ráðgert er að sundlaugin opni aftur laugardaginn 7. júní kl. 9:00. Fram kemur á heimasíðu Sveitarfélagsins Árborgar að sundþyrstir gestir Sundhallar Selfoss geta kíkt á Stokkseyri en þar sé „virkilega gott að slaka á í heitu pottunum.“

Miklar framkvæmdir eru við Sundhöllina þetta árið en viðbyggingin mun rísa á næsta ári. Í þessari viðhaldslokun er þó mest verið að þrífa allan búnað eftir veturinn og mála. Innilaugin verður svo tekin í hressilega andlitslyftingu en hún verður lokuð fram í miðjan júní vegna þessa.