Sumartónleikar tilnefndir til Eyrarrósarinnar 2011

Sumartónleikar í Skálholti eru meðal þriggja menningarverkefna sem tilnefnd eru til Eyrarrósarinnar 2011.

Eyrarrósin er veitt árlega fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni og verður afhent í sjöunda sinn á Bessastöðum 13. febrúar næstkomandi. Auk Sumartónleika í Skálholti eru tilnefnd úr hópi umsækjenda 700IS Hreindýraland á Egilsstöðum og Þórbergssetur á Hala í Suðursveit.

Sumartónleikar í Skálholti hafa í 35 ár verið haldnir í nokkrar vikur á hverju sumri í Skálholtsdómkirkju í Biskupstungum. Jafnframt er þar staðið að öflugri útgáfu og rannsóknum á tónlistararfinum. Fjölbreytt efnisval og gæði Sumartónleikanna laða að stóran hóp tónlistarunnenda auk ferðamanna og annarra gesta enda orðnir fastur liður í lífi fjölda fólks. Listrænn metnaður hátíðarinnar hefur eflt nýsköpun í tónlist, stuðlað að vakningu á flutningi barokktónlistar á Íslandi og dýpkað þekkingu á íslenska söngarfinum. Sumartónleikar í Skálholti eru mikilvægur menningarviðburður sem jafnframt veitir almenningi greiðan aðgang að einum sögufrægasta stað landsins.

Eyrarrósin er samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík, Byggðastofnunar og Flugfélags Íslands. Markmið Eyrarrósarinnar er að efla fagmennsku og færni við skipulagningu menningarlífs og listviðburða á landsbyggðinni, skapa sóknarfæri á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu og auka kynningarmöguleika einstakra sveitarfélaga og landshluta.