Sumarlandið gefin út á ensku

„Ég hef fengið hundruð símtala frá fólki með tárin í augunum þar sem það þakkar mér fyrir að hafa gefið Sumarlandið út en sú bók seldist í mörg þúsund eintökum.

Nú er ég komin í útrás á gamals aldri og ætla að leyfa útlendingum að njóta bókarinnar líka því hún er komin út á ensku,“ segir Guðmundur Kristinsson, 85 ára rithöfundur á Selfossi, þegar hann var spurður út í nýjustu bókina, „The Summerland“.

Í bókinni lýsa framliðnir andláti sínu og endurfundum í framlífinu og birtar eru fjörutíu frásagnir látinna ættingja og vina og nokkurra þjóðkunnra manna, þar af tólf presta, níu systkina frá Skipum og breskra flugmanna frá Kaldaðarnesi. Guðmundur hefur þurft að láta prenta Sumarlandið fimm sinnum vegna mikilla vinsælda en bókin kom fyrst út í nóvember 2010.

Hvað tekur við þegar við deyjum?
„Tilgangur bókarinnar er fyrst og fremst að leitast við að fá svör við því hver verða örlög okkar við líkamsdauðann, hvað við taki og hvernig hinn huldi heimur sé. Eina leiðin til þess að öðlast þá vitneskju er að hafa samband við þá, sem hafa látist og spyrja þá“, segir Guðmundur en hann átti fundi með fimm afburða transmiðlum þegar hann vann efnið í bókina.

Þetta eru þau Horace S. Hambling og íslensku miðlarnir Hafsteinn Björnsson, Björg Ólafsdóttir, Sigríður Jónsdóttir og Garðar Jónsson. Bob Yorstons, fyrrum flugmaður í Kaldaðarnesi, sem nú býr í Dundee í Skotlandi aðstoðaði Guðmund við þýðingu nýju bókarinnar.

Heimasala á Bankaveginum
„Bókin mun fást í öllum betri bókaverslunum landsins, auk þess sem hún verður til sölu í Leifsstöð. Á Selfossi verður hún til í Sunnlenska bókakaffinu og heima hjá mér á Bankavegi 2, þangað eru allir velkomnir en það er gott að hringja á undan sér, síminn er 482-1567,“ segir Guðmundur þegar hann var spurður hvar væri hægt að kaupa ensku þýðinguna af bókinni.

Fyrri greinSlátrun hefst 20. ágúst
Næsta greinStokkseyri lá í Breiðholtinu