Sumarið fer vel af stað í Hekluskógum

Birki blómgast sem aldrei fyr í Hekluskógum og má búast við miklu fræi í haust ef það nær að þroskast. Jörð er frostlaus langt inn til fjalla og bestu skilyrði til gróðursetningar.

Vel hefur gengið að gróðursetja og hafa landeigendur og verktakar unnið hörðum höndum að gróðursetningu víða um svæðið.

Helgin 20. – 21. maí var stór helgi hjá Hekluskógum. Margir hópar komu að gróðursetja í yndislegu veðri. Á laugardeginum komu fótboltastrákar frá Selfossi ásamt foreldrum. Einnig mættu hópar til uppgræðslu og gróðursetningar í Mótorhjólaskóga. Hóparnir sem komið hafa að verkefninu Mótorhjólaskógar eru: BMW Ísland, Skutlur, Gaflarar, H.O.G. Chapter Iceland (Harley Davidson) sem hafa unnið á svæðinu einn dag á ári frá árinu 2012 og Slóðavinir frá árinu 2009. Skutlurnar sýndu góða takta í gróðursetningu og svo fór að engar plöntur voru eftir fyrir Slóðavini sem unnið hafa að uppgræðslu og birkirækt í Vaðöldu sem er norðan við svæði Mótorhjólaskóganna. H

Sunnudaginn 21. maí kom annar stór hópur fótboltadrengja frá Selfossi og foreldrar þeirra, auk hóps fimleikastúlkna frá Hveragerði með foreldrum.

Alls voru gróðursettar um 35 þúsund plöntur auk áburðargjafar af þessum hópum.

Fyrri greinSnorri Hrafnkels í Þór
Næsta greinGott stig í Keflavík