Sumarhúsaeigendur kæra

Félag sumarbúastaðaeigenda á Þingvöllum hefur kært Holræsa- og stífluþjónustu Suðurlands til lögreglu.

Ástæðan er sú að síðastliðinn föstudag voru starfsmenn fyrirtækisins staðnir að verki við að losa skólpvökva út í móa í Kárastaðalandi, sem liggur inni á vatnsverndarsvæði Þingvallavatns.

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hefur veitt eiganda Holræsa- og stífluþjónustunnar áminningu vegna athæfisins. Verði fyrirtækið aftur staðið að slíku missir það starfsleyfið. Óttast er að neysluvatn sumarbústaða á svæðinu hafi mengast en nú er beðið eftir niðurstöðum mælinga Heilbrigðiseftirlits Suðurlands.

Í Morgunblaðinu í dag segir sumarbústaðaeigandi í Kárastaðalandi að viðbrögð yfirvalda í málinu séu í engu samræmi við alvarleika þess og sakar heilbrigðiseftirlitið um óvandaða stjórnsýsluhætti.

Morgunblaðið ræðir einnig við Birgi Þórðarson, fulltrúa hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands og segir hann fólk á svæðinu þurfa að sjóða neysluvatn þar til niðurstöður mælinga hafi komið fram.

Sævar Harðarson, verkefnastjóri hjá Holræsa- og stífluþjónustu Suðurlands, segir að um mannleg mistök hafi verið að ræða og fyrirtækið muni gera það sem því ber til að bæta fyrir þau mistök. Auk áminningar var fyrirtækinu gert að hreinsa upp eftir sig á vettvangi.

Fyrri grein5,3% atvinnuleysi í júlí
Næsta greinHafrún í KR