Sumarhús mikið skemmt eftir eldsvoða

Ljósmynd/BÁ

Brunavarnir Árnessýslu fengu tilkynningu um eld í sumarhúsi í Brekkuskógi kl. 13:19 í dag. Þegar fyrstu menn komu á vettvang var húsið alelda.

Slökkviliðsmenn frá Laugarvatni, Flúðum og Selfossi voru sendir af stað, á þremur dælubílum, tankbíl og með gróðureldakerru.

Eldur logaði einnig í gróðri í kringum húsið og einbeittu slökkviliðsmenn sér í upphafi að því að ná tökum á gróðureldinum, til hefta útbreiðslu eldsins og verja þar með önnur sumarhús í nágrenninu.

Sumarbústaðurinn er mikið skemmdur eftir eldsvoðann. Eldsupptök eru ókunn en lögreglan á Suðurlandi mun annast vettvangsrannsókn þegar slökkvistarfi er lokið.

UPPFÆRT KL. 15:28: Sumarhúsið var í eigu Orlofssjóðs Bandalags háskólamanna og var það mannlaust þegar eldurinn kom upp. Í tilkynningu frá BHM segir að ljóst sé að tjón Orlofssjóðs sé verulegt og verður unnið að því að meta það á næstu dögum. Um er að ræða hús nr. 28. Sjóðfélögum sem kunna að hafa bókað þetta hús til dvalar á næstunni er vinsamlegast bent á að hafa samband við þjónustuver BHM.

Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu
Fyrri greinLeitað án árangurs á Þingvöllum í gær
Næsta greinHamri spáð upp um deild