Sumarhátíð í Heiðarblóma á Stokkseyri

Margrét Magnúsdóttir í Garðyrkjustöðinni Heiðarblóma. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Næstkomandi laugardag verður hin árlega sumarhátíð haldin á Gróðarstöðinni Heiðarblóma á Stokkseyri.

„Fyrsta sumarhátíðin var haldin rétt fyrir síðustu aldamót og hefur hún verið haldin á hverju ári síðan, fyrir utan tvö ár sem við misstum úr, síðast í fyrra vegna COVID,“ segir Margrét Magnúsdóttir, garðyrkjufræðingur og einn af eigendum Heiðarblóma, í samtali við sunnlenska.is.

Vildum gera eitthvað skemmtilegt
„Þetta var bara svona hugmynd sem við fengum um að gera eitthvað skemmtilegt einu sinni á sumri og fá einhverja tónlistarmenn til að flytja tónlist. Þá er gjarnan sungið saman og haft gaman. Upphaflega var hátíðin kölluð opnunarhátíð og var þá yfirleitt haldin snemma í júní. Við vildum gera eitthvað skemmtilegt með kúnnunum okkar og kynna starfsemina í leiðinni.“

„Hátíðin er opin öllum og ekki síst öllum góðu viðskiptavinunum okkar í gegnum tíðina og svo er algengt að brottfluttir Stokkseyringar komi og hittist á hátíðinni og svo ættingjar og vinir og fólk allstaðar að. Við sjáum mikið af kunnuglegum andlitum og svo koma alltaf einhverjir í fyrsta sinn,“ segir Margrét.

Batnandi veðri fylgir gleði
Margrét segir að þó að sumarið hafi ekki byrjað vel þá hafi það ekki haft mikil áhrif á garðeigendur og sumarblómin hafi selst mjög vel hjá þeim.

„Margar trjá- og runnategundir eru seinar í ár og aðrar munu blómstra mun minna en í fyrra, en svo þegar líður á sumarið mun gróðurinn jafna sig. Fólk er ansi duglegt í garðinum en eftir langvarandi kulda kemur bakslag í suma en þeir taka gleði sína aftur þegar veðrið batnar,“ segir Margrét.

„Rósir eru afar vinsælar en þær eru seinar til í ár og verða þá bara fallegri þegar líður á sumarið, tré og runnar með rauð lauf eru afar vinsæl. Af sumarblómum hengitóbakshorn, sólboði, morgunfrú, fjólur, fuchia, dalia, skógarmalva og hádegisblóm vinsælust. Bóndarósirnar og liljurnar eru einnig afar vinsælar núna,“ segir Margrét, aðspurð hvað sé vinsælast hjá henni.

Hægt að rækta ýmislegt þótt á móti blási
„Á Stokkseyri var eitt sinn álitið að ekkert væri hægt að rækta og reka margir upp stór augu er þeir heyra af gróðrarstöð á Stokkseyri. Magnús Gunnar og Viktoría í Hátúni hófu ræktun uppúr 1985 og stofnuðu Heiðarblóma nokkrum árum síðar. Gróðrarstöðin Heiðarblómi eða Blómi eins og margir kalla stöðina í daglegu tali var stofnuð með það að leiðarljósi að kynna harðgerðar trjátegundir fyrir fólki sem hefur áhuga á að rækta garðinn sinn þrátt fyrir að á móti blási. Í skjólinu þrífst ýmislegt sem ekki þótti vænlegt til ræktunar hér áður fyrr, fyrst þarf að skapa skjólið og þá er ýmislegt hægt.“

„Heiðarblómi hefur ætíð verið lítið fjölskyldufyrirtæki en er í stöðugri sókn, nú kemur í Heiðarblóma fólk allstaðar að af landinu og svo koma sömu viðskiptavinirnir ár eftir ár. Við þökkum fyrir góð viðskipti í gegnum tíðina og vonumst til að sjá sem flesta á laugardaginn,“ segir Margrét að lokum.

Fyrri greinHarður árekstur í Ölfusinu
Næsta greinKristrún komin heim