Sumarhátíð í Hveragerði

Það verður mikið um að vera fyrir alla fjölskylduna í Hveragerði á morgun, laugardag.

Þar verður haldin sumarhátíð í samstarfi við Garðyrkjuskólann að Reykjum en hið árlega opna hús verður í skólanum á morgun.

Frítt verður í sund í Laugarskarði og á HNLFÍ, ungir Hvergerðingar lesa upp ljóð á sundlaugarbakkanum og í Listasafninu verður fjölskylduleikur og fleira skemmtilegt. Þá verður páskaeggjaleit í sundlaugargarðinum kl. 12.

Hátíðardagskráin í garðyrkjuskólanum hefst kl 14. Þangað mæta menntamálaráðherra til að veita garðyrkjuverðlaunin 2011 og forseti Íslands mun afhenda umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar.