Sumarbústaðaeigendur fjarlægi girðingar

Sumarbústaðaeigendum innan Þjóðgarðsins á Þingvöllum hefur verið gert að fjarlægja girðingar umhverfis bústaði sína.

Með þessu batnar ásýnd þjóðgarðsins og auðveldara verður að ferðast innan svæðisins. Í staðinn mun þjóðgarð­urinn girða fyrir ofan sumar­bústað­ina við Kárastaði á Þingvöllum í júní og koma þannig í veg fyrir ágang fjár á svæðinu.

Þessum breytingum er komið á í samning­um sem nýbúið er að endurnýja við sumarbústaða­eigend­ur innan þjóð­garðsins og gilda til næstu tíu ára segir Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður.

Einnig stendur til að gera hollustuþáttakönnun á vatnsöflun á svæðinu og frárennsli rotþróa í Þingvallavatn. Ólafur Örn segir þetta tilkomið vegna þess að komin er gríðarlega ströng hollustureglu­gerð sem krefur um þriggja þrepa rotþrær við vatnið fyrir árið 2020. Þær eru öflugri en venjulegar rotþrær því þær taka líka köfnunarefni sem ella gætu borist í vatnið, haft áhrif á lífríkið og spillt þar með tærleika Þingvallavatns.