Sumar á Selfossi hefst í dag

Bæjar- og fjölskylduhátíðin Sumar á Selfossi hefst í dag og nær hápunkti sínum á laugardag þar sem m.a. verður boðið upp á morgunmat og sléttusöng.

Leikhópurinn Lotta opnar hátíðina kl. 18 í dag með leiksýningunni Mjallhvíti, sem sýnd er á tjaldsvæðinu við Engjaveg og er aðgangseyrir 1500 krónur fyrir börn og fullorðna.

Selfyssingar eru hvattir til að skreyta hús sín í hverfalitunum og verða vegleg verðlaun í boði fyrir best skreytta húsið og götuna.

Líkt og undanfarin ár bjóða fyrirtæki í bænum öllum til morgunverðar á laugardagsmorgun frá kl. 9-11 í stóru samkomutjaldi í bæjargarðinum. Bæjarbúar eru hvattir til að mæta og byrja daginn á hollum og næringarríkum morgunverði til að takast á við það sem á eftir kemur, en mikið verður um að vera í bænum og fjölbreytt skemmtidagskrá við allra hæfi verður í boði í garðinum.

Um kvöldið verður sléttusöngur, flugeldasýning og deginum lýkur svo í hátíðartjaldinu á dansleik í boði Set og stórdansleik með Skítamóral í Hvítahúsinu.