Sumar á Selfossi byrjaði með látum

VÆB-bræðurnir héldu uppi frábærri stemningu í troðfullu tjaldi í Sigtúnsgarði. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Bæjarhátíðin Sumar á Selfossi hófst í gærkvöldi með fjölskylduskemmtun í Sigtúnsgarði. Hátíðin er fyrst og fremst sumarhátíð heimafólks og er ein sú stærsta sem haldin er á Suðurlandi.

Þrjátíu ár eru síðan fyrsta hátíðin var haldin, á Jónsmessunni árið 1995 en Knattspyrnufélag Árborgar hefur verið umsjónaraðili hátíðarinnar allt frá árinu 2004. Þess má geta að félagið fagnar 25 ára afmæli í ár.

Í gærkvöldi skemmtu VÆB og Emmsjé Gauti upp í tjaldinu í Sigtúnsgarði og þar var fullt út úr dyrum og rúmlega það. BMX BRÓS bundu svo endahnútinn á skemmtunina áður en bæjarbúar héldu heim til þess að skreyta hús sín og götur.

Sléttusöngur og sveitaball
Dagskráin um helgina er glæsileg og nær hún hápunkti sínum með Sléttusöng í Sigtúnsgarði á laugardagskvöld þar sem þúsundir sameinast í söng. Þar mun Gunnar Ólason stýra stemningunni og veitt verða verðlaun fyrir best skreyttu húsin og götuna.

Á föstudagskvöld verða stórtónleikar með Hr. Eydís og Heru Björk og á laugardagskvöldið verður sveitaball í Sigtúnsgarði með Skítamóral, Koppafeiti og Klöru Einars.

Þá eru ónefndir fastir liðir eins og menningarganga, handverksmarkaður og sundlaugarpartí en þessa helgina fara einnig fram stórir íþróttaviðburðir á Selfossi; Orbea-þríþrautin, Olísmótið í knattspyrnu og Brúarhlaupið. Einnig verður börnum boðið á hestbak, veiðidagur fjölskyldunnar er í Ölfusá á sunnudaginn og sama dag verður kaffihúsamessa í Selfosskirkju.

sunnlenska.is/Guðmundur Karl
sunnlenska.is/Guðmundur Karl
sunnlenska.is/Guðmundur Karl
sunnlenska.is/Guðmundur Karl
sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinKristinn Ásgeir vængstýfði Kríuna
Næsta greinKlara Einars stóð af sér storminn á Þjóðhátíð