Alls bárust 49 umsóknir í nýsköpunarhraðalinn Startup Landið, sem er sjö vikna viðskiptahraðall sem ætlaður er frumkvöðlum og nýsköpunarverkefnum á landsbyggðinni.
Verkefnið er styrkt af Nýsköpunarsjóði Lóunar og er samstarfsverkefni landshlutasamtakanna SSNE, SSNV, Vestfjarðarstofu, Austurbrúar, SASS, SSS og SSV. Hver landshluti fékk að velja tvö verkefni til þátttöku og fyrir hönd Suðurlands voru valin verkefnin Festivus handverkssúkkulaði og Hundaveisla.
Að Festivus standa Andrés Bragason og Auður Mikaelsdóttir, sem ætla að framleiða vandað súkkulaði sem fangar sérkenni Austur-Skaftafellssýslu í bæði bragði og útliti.
Að Hundaveislu standa Unnur Hagalín og Særún Eva Hjaltadóttir, sem hyggjast hefja framleiðslu á fersku, hollu heilfóðri fyrir hunda sem hægt verður að nálgast í matvöruverslunum.
Hraðallinn hefst 18. september og lýkur með lokaviðburði á Akureyri 30. október, þar sem þátttakendur kynna verkefni sín. Á meðan á hraðlinum stendur fá teymin aðgang að leiðbeinendum, fræðslu og tengslaneti sem getur reynst lykilatriði í uppbyggingu og þróun verkefnanna.
Markmið Startup Landið er að efla nýsköpun og skapa vettvang fyrir hugmyndir sem geta þróast, vaxið og dafnað á landsbyggðinni.

