Suðurengi fallegasta gatan í Árborg

Bragi Bjarnason, formaður bæjarráðs og umhverfisnefndar Árborgar og nefndarkonurnar Björg Agnarsdóttir og Arna Ír Gunnarsdóttir afhentu þeim Jóhannesi og Axel Inga blómvönd fyrir hönd íbúa í götunni. Axel Ingi fékk aðstoð frá pabba sínum, Svavari Stefánssyni við að afhjúpa skiltið. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Suðurengi á Selfossi er fallegasta gatan í Árborg 2023 en íbúar götunnar fengu umhverfisviðurkenningu sveitarfélagsins afhenta síðdegis í dag.

Það er umhverfisnefnd Árborgar sem veitir viðurkenninguna og auglýsir eftir tilnefningum og nefndin kaus síðan á milli tveggja gatna sem fengu flestar tilnefningar. Þar hafði Suðurengið betur en að mati nefndarinnar er götumyndin þar gróin og vel hirt og við götuna eru fallegir og snyrtilegir garðar sem saman mynda fallega heild.

Elsti og yngsti íbúinn í götunni, þeir Jóhannes Guðmundsson 97 ára, fæddur 1926 og Axel Ingi Svavarsson 11 mánaða, fæddur 2022, fengu blómvendi þegar þeir voru búnir að afhjúpa farandskilti sem sett hefur verið upp á ljósastaur fremst í götunni. Þetta er í annað sinn sem Suðurengi hlýtur þessi verðlaun, síðast árið 2008.

Jóhannes og Axel Ingi afhjúpa skiltið. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Íbúar í Suðurenginu tóku glaðir á móti viðurkenningunni en þeir eru margir hverjir búnir að skreyta húsin sín glæsilega í tilefni af bæjarhátíðinni Sumar á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinAlvarlegt vélsleðaslys við Skálpanes
Næsta greinEngin núll á tombólu kvenfélagsins