Subaruinn fannst stórskemmdur við Geysi

Subarubifreiðin sem stolið var á Selfossi um helgina og lýst hefur verið eftir fannst skammt neðan við Geysi í Haukadal í gærdag.

Bifreiðin var stórskemmd en henni mun hafa verið ekið á nokkur umferðarmerki á Laugarvatni. Grunur er um að henni hafi verið ekið á hliðstólpa á rimlahliði að Fellsenda við Kjósarskarðsveg. Þar var einnig brotist inn í sumarhús og rótað í hirslum.

Lýst var eftir bifreiðinni á sunnlenska.is síðastliðinn mánudag eftir að henni hafði verið stolið þar sem hún stóð bak við heimavist FSu við Eyraveg á Selfossi.

Lögreglan biður þá sem hafa orðið varir við grænu Subarubifreiðina á leiðinni frá Þingvöllum um Laugarvatn að Geysi á tímabilinu frá kl. 19 síðastliðinn laugardag þar til á sunnudagskvöld vinsamlegast að hafa samband í síma 480 1010.

Fyrri grein„Reið yfir því að vera þjófkennd“
Næsta greinKór ML syngur í Skálholtskirkju