Suðurlandsvídeó lokar

Þrjátíu ára sögu Suðurlandsvídeó á Selfossi er að ljúka en lagerinn verður seldur og leigan lokar fyrir jól.

„Krakkarnir hafa rekið þetta í sameiningu síðan í september. Við vonuðumst til að geta rekið vídeóleiguna í ár. En þetta borgar sig ekki og við viljum ekki taka sénsinn. Draumur okkar nú er að klára að selja lagerinn og loka fyrir jól,“ segir Kristrún Agnarsdóttir í samtali við Viðskiptablaðið.

Sonur hennar, Benedikt Arnar Oddsson, keypti rekstur vídeóleigunnar í haust af Aðalsteini Jörgensen sem hefur rekið leiguna í 26 ár.

Kristrún segir ástæðuna fyrir lokuninni þá að útleiga á DVD diskum hefur dregist mikið saman auk þess sem margir viðskiptavinir virðist ekki bera virðingu fyrir því sem þeir leigja. „Sumt fólk ber ekki mikla virðingu fyrir diskunum og skilar þeim rispuðum til baka. Börn fara mjög illa með barnamyndirnar. Svo skilar fólk seint og illa og neitar að borga sekt,“ segir Kristrún og bætir við að þótt flestir viðskiptavinir séu góðir þá séu trassarnir þeir sem geri reksturinn erfiðan.

Þau mæðgin vinna nú að því að selja lagerinn, allar þær DVD-myndir sem til eru á leigunni. „Við höfum ekki pláss fyrir hann heima,“ segir Kristrún.

Frétt Viðskiptablaðsins

Fyrri greinHaförn undir Austur-Eyjafjöllum
Næsta greinDúkarabandið með jólasmellinn í ár