Suðurlandsvegur lokaður til austurs

Suðurlandsvegur er nú lokaður til austurs frá Litlu kaffistofunni en flutningabifreið situr föst fyrir ofan Draugahlíðarbrekku. Löng bílaröð hefur myndast niður á Sandskeið en verið er að vinna í að aðstoða ökumann flutningabifreiðarinnar við að koma bifreiðinni af vettvangi.

Áfram er Suðurlandsvegur opin til vesturs en lögregla ítrekar beiðni sína um að fólk sé ekki á ferðinni að óþörfu.

Enn eru fastir fólks- og flutningabílar við gatnamót Þrengslavegar og Suðurlandsvegar í austur og er bílaröð farin að myndast í átt að Litlu kaffistofunni. Hjálparsveit skáta í Hveragerði hefur verið kölluð út til aðstoðar ökumönnum.

Þá hefur ein bifreið farið út af á Suðurlandsvegi ofan við Draugahlíðarbrekku og ein bifreið fór út af á gatnamótum Suðurlandsvegar og Þrengslavegar í vestur.

Þá bilaði bifreið í Hveradalabrekku á leið í austur og var þar skilin eftir. Er farið að fenna í kringum hana og sést hún illa og er verið að vinna að því að hún verði fjarlægð.

Mosfellsheiði og Þingvallavegur eru illfær og tilkynningar að berast lögreglu um erlenda ferðamenn í vandræðum þar.

Við Lómagnúp fór fólksbíll útaf veginum og hafnaði í vatnspolli. Fjórir voru í bílnum og sakaði þá ekki.

Lögregla vill ítreka við fólk að vera ekki á ferðinni á þessum slóðum að óþörfu. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni má búast má við slæmu ferðaveðri á sunnanverðu landinu það sem eftir er dags.

Fyrri greinEkki vera á ferðinni að óþörfu
Næsta greinBúið að opna Suðurlandsveg