Suðurlandsvegur lokaður vegna umferðarslyss

Mynd úr safni.

Suðurlandsvegur er lokaður við Iðjuvelli á Kirkjubæjarklaustri vegna umferðarslyss skammt austan við Klaustur. Tvær bifreiðar lentu þar í hörðum árekstri.

Ökumaður var einn í öðrum bílnum en tveir aðilar í hinum. Ekki liggja fyrir upplýsingar um meiðsl þeirra en þeir eru allir með meðvitund.

Vegurinn er lokaður í báðar áttir og er engin hjáleið um vettvanginn.

Tilkynning um slysið barst um kl. 16:10 og voru viðbragðsaðilar þegar sendir af stað, þar á meðal tvær þyrlur frá Landhelgisgæslunni.

Lögreglan á Suðurlandi veitir ekki nánari upplýsingar um slysið að svo stöddu en búist er við að vegurinn verði lokaður í nokkurn tíma.

UPPFÆRT KL. 18:45: Allir þrír aðilarnir í slysinu eru nú komnir eða að koma til Reykjavíkur í einni og sömu þyrlu Landhelgisgæslunnar. Vegurinn verður enn lokaður um stund á meðan rannsókn stendur yfir og ökutækin fjarlægð af veginum.

UPPFÆRT KL. 20:20: Opnað verður fyrir umferð um Suðurlandsveg á næstu mínútum. Henni verður stýrt til að greiða úr þeirri biðröð sem hefur myndast.

Fyrri greinSelfyssingar bikarmeistarar í handbolta
Næsta greinVið ætlum að skapa sátt um störf bæjarstjórnar í Árborg