Suðurlandsundirlendi hentar vel undir vindrafstöðvar

Að undanförnu hefur verið að störfum hópur hjá Landsvirkjun sem kannað hefur hvernig undirbúa mætti uppsetningu og rekstur vindrafstöðva á Íslandi.

Samkvæmt upplýsingum sem fengust frá Landsvirkjun hefur hópurinn metið staðsetningu fyrir uppsetningu á einni til tveimur vindrafstöðvum af stærðargráðunni 1 til 2 MW. Við þá athugun hefur hann einnig haft til viðmiðunar hvort fýsilegt væri að byggja stærra vindorkubú.

Í athugun hópsins hefur verið tekið tillit til alls landsins, en ekki hefur verið einblínt á ákveðna staði á landinu. Greind hafa verið veðurgögn, athuguð nálægð við vegakerfi, háspennulínur og tengivirki. ,,Þó má almennt segja að Suðurlandsundir­lendi virðist á þessu stigi henta vel undir vindrafstöðvar. Vindur er stöðugur á þessu svæði, þar sem það er flatlent og minni hvirflar eru í vindinum,“ segir í svari Landsvirkjunar við fyrirspurn Sunnlenska.

Fellur að stefnumótun Landsvirkjunar
Hér er um að ræða mjög spennandi verkefni. Fyrirtæki um öll Norðurlönd eru nú að skoða vindorku sem möguleika, en slíkt hefur gefist vel t.d. í Danmörku og Svíþjóð. Landsvirkjun er, eins og fram hefur komið af hálfu fyrirtækisins, að leggja aukna áherslu á að skoða nýja endurnýjanlega orkugjafa, sem viðbót við vinnslu úr vatnsafli og jarðhita. Þessi verkefni eru enn á tilraunastigi en það verður spennandi að fylgjast með því hvort aðrir orkugjafar séu raunhæfur möguleiki hérlendis.

Vindrafstöðvar hafa öðruvísi eiginleika en vatnsafls- og jarðgufu­virkjanir. Því þarf að „máta“ vindorkuver við núverandi raforkukerfi og skoða hagkvæmni samrekstrar við raforkukerfið með reiknilíkönum Landsvirkjunar og Landsnets. Í þessum áfanga verkefnisins verður athugað hvernig rekstur á vind­rafstöðvum fellur að raforkuvinnslu Landsvirkjunar sem vinnur einkum rafmagn með hjálp vatnsorku.

Í næsta skrefi verður hagkvæmni við byggingu vindrafstöðva könnuð og rekstur þeirra metinn með tilliti til fjárfestinga

Norrænn styrkur
Þess má geta að fyrr á þessu ári fékkst styrkur frá Norrænu ráðherranefndinni, að upphæð 12,3 milljónir norskra króna til verkefnis sem heitir ,,Integration of wind in cold climate” og er samnorrænt rannsóknarverkefni. Sérstakur fókus er á Ísland, en að verkefninu koma Landsvirkjun, Veðurstofa Íslands og rannsóknaraðilar frá öðrum Norðurlöndunum. Verkefnið er að hefjast núna í september 2010 og lýkur 2014.