Suðurland undir landsmeðaltali í samræmdum prófum

Einkunnir nemenda í sunnlenskum grunnskólum eru iðulega neðan við landsmeðaltal í samræmdum könnunarprófum frá í fyrrahaust.

Námsmatsstofnun hefur birt tölur með niðurstöðum prófa ársins 2010. Samræmdar einkunnir og námsþáttareinkunnir 10. bekkjar á Suðurlandi eru undir landsmeðaltali í öllum prófuðum greinum; íslensku, ensku og stærðfræði og tengdum greinum. Líkt og í fyrra komu skólarnir í Bláskógabyggð og Laugalandsskóli í Holtum vel út í 10. bekk.

Ef tekið er tillit til árangurs á síðustu sex árum þar sem stuðst er við normaldreifðar einkunnir er Laugalandsskóli að standa sig best í íslensku yfir árin 2005-2010 með 34,4 og hann gerði það sömuleiðis í fyrra með 36,2. Í stærðfræði er hann sömuleiðis bestur yfir árin 2005-2010 með 32,8 en í fyrra stóð Grunnskóli Bláskógabyggðar sig best með 33,8. Laugalandsskóli skoraði einnig hæst í ensku fyrir árin 2005-2010 með 31,7 en Grunnskóli Bláskógabyggðar sló þeim við í fyrra með 33,5.

Einkunnir nemenda 7. bekkja í sunnlensku skólunum eru rétt undir landsmeðal­tali í flestum námsgreinum. Þar er einungis málfræðin upp á 6,1 sem er hærri en landsmeðaltalið, 6,0. Framfarastuðull er reiknaður út frá einkunnum nemenda á tveimur samræmdum prófum. Honum er ætlað að gefa vísbendingu um hvort frammistaða nemenda í viðkomandi skóla hafi breyst frá því er árgangurinn þreytti samræmd próf fyrr á námsferlinum.

Framfarastuðlar og normaldreifðar einkunnir 7. bekkjar í íslensku sýna þrjá skóla jafna á Suðurlandi fyrir árin 2005-2010 með 1,03: Grunnskólann Hellu, Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri og Sunnulækjar­skóla á Selfossi. Í stærðfræði eru það aftur á móti Grunnskóli Mýrdalshrepps og Laugalandsskóli í Holtum sem eru efstir og jafnir með 1,04.