Styttist í opnun Fjallabaks

Enn er mikill snjór að Fjallabaki og svæðið lokað fyrir almennri umferð. Vegagerðin vinnur að því að opna leiðina inn í Landmannalaugar og færið hefur lagast hratt síðustu daga, eftir því sem hlýnað hefur og bleyta og krapi eru að minnka.

Hefill er búin að fara alla leið í Laugar og nú er ýta lögð af stað og almenn bjartsýni ríkir um að hægt verði að opna fyrir umferð og áætlunarferðir innan nokkurra daga.

Skálaverðir eru komnir í alla skála Ferðafélags Íslands og eru að undirbúa skálana fyrir almenna opnun. Vatn er komið á alla skála og full þjónusta. Enn er göngufærið þó erfitt um Laugaveginn.

Tjaldstæðið í Landmannalaugum er undir snjó og gönguleiðin um Hrafntinnusker og niður í Álftavatn er meira eða minna undir snjó. Í Álftavatni er snjórinn þó hratt að hopa og til að mynda er tjaldstæðið þar að hluta komið undan snjó og orðið boðlegt fyrir tjaldgesti.

Frá þessu er greint á heimasíðu .

Fyrri greinNaflahlaupið á laugardag
Næsta greinVarað við vindstrengjum undir Eyjafjöllum