Styttist í nýja Búrfellsvirkjun

Landsvirkjun hefur auglýst útboð á ráðgjafaþjónustu vegna stækkunar á Búrfellsvirkjun. Með stækkun Búrfellsvirkjunar verður hámarkaður afrakstur af nýtingu rennslis Þjórsár við Búrfell, en í dag renna að jafnaði um 410 gígavatt stundir af orku fram hjá stöðinni á ári hverju.

Um er að ræða útboð á hönnun og gerð útboðsgagna vegna framkvæmda við 100 MW stækkun Búrfellsvirkjunar ásamt lokahönnun og þjónustu á byggingartíma. Heildarkostnaður er áætlaður um 14 milljarðar króna.

Við breytinguna eykst orkugetan í Búrfelli um allt að 300 gígavatt stundir á ári. Einn af kostum þess að stækka er að þá gefst tækifæri til nauðsynlegs viðhalds núverandi Búrfellsstöðvar án þess að draga þurfi úr getu til orkusölu.

Áformað er að staðsetja nýtt stöðvarhús neðanjarðar í Sámsstaðaklifi og eru öll veitumannvirki ásamt inntakslóni fyrir stækkun stöðvarinnar hluti af núverandi aflstöð.

Skipulagsstofnun hefur gefið út að umrædd framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Áætlað er að framkvæmdir við stækkun Búrfells geti hafist fyrri hluta árs 2016 og að stækkuð Búrfellsvirkjun gæti verið komin í gagnið 2018.

Fyrri greinStraumlaust í uppsveitunum
Næsta greinÚtlitið ekki bjart hjá Þór