Styrktu Ljónshjarta um tvær milljónir króna

Frá afhendingu styrksins í dag en á myndinni eru þau Elín Diljá, Embla Lön og Stefán Gunngeir ásamt skólastjórnendum og fulltrúum frá Ljónshjarta. Ljósmynd/Aðsend

Nemendur og starfsfólk Grunnskólans í Hveragerði afhentu í dag samtökunum Ljónshjarta tveggja milljón króna styrk, sem er ágóði af góðgerðardegi sem haldinn var í skólanum þann 1. desember síðastliðinn.

Undanfarin ár hafa nemendur og starfsfólk Grunnskólans í Hveragerði haldið góðgerðarþema í nóvember. Tilgangur þemadaganna er að efla samkennd nemenda og láta um leið gott af sér leiða.

Þrír dagar fara í vinnu þar sem ýmsar vörur eru útbúnar og svo seldar á góðgerðardegi, sem haldinn var föstudaginn 1. desember síðastliðinn. Markaðstorg var opið öllum í íþróttahúsi og einnig sáu nemendur á elsta stigi um kaffihús í mötuneyti skólans fyrir gesti.

Að loknum góðgerðardeginum fer fram umræða í öllum bekkjum um hvaða starfsemi eigi að styrkja og í framhaldi af þeirri umræðu er rafræn könnun lögð fyrir hvern bekk. Kosning um hugmyndir nemenda fer einnig fram meðal starfsfólks. Sameiginleg niðurstaða starfsfólks og nemenda í ár var sú að styrkja Ljónshjarta en það eru samtök til stuðnings fólki sem misst hefur maka og barna sem misst hafa foreldri.

Afrakstur góðgerðardagsins hefur verið afhentur ýmsum félagasamtökum frá árinu 2015 en málefnin hafa verið valin með tilliti til þess að börn njóti á einhvern hátt góðs af styrknum. Umtalsverðar fjárhæðir hafa safnast á þessum árum með sölu á vörum og eins hafa fjölmörg fyrirtæki stutt við bakið á söfnuninni með beinum peningastyrkjum. Samtals hafa verið veittar rúmar 11,4 milljónir króna í styrki á þessum níu árum.

Fyrri grein2,8 milljónir söfnuðust fyrir SKB á Kótelettunni
Næsta greinGleði og friðarjól hjá Þórsurum