Styrktu HSu um tæpa hálfa milljón króna

Hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar á heilsugæslunni á Selfossi afhentu framkvæmdastjóra HSu í dag 490.000 kr. sem er ágóði af sölu dagatals sem þeir gáfu út í desember á síðasta ári.

Hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar á heilsugæslunni á Selfossi vilja koma á framfæri kæru þakklæti til fyrirtækja og einstaklinga fyrir rausnarlegan stuðning í fjáröfluninni sem fram fór í desember sl.

„Allir þeir fjölmörgu sem keyptu dagatal hafa nú lagt okkur lið við að halda áfram að veita framúrskarandi hjúkrunarþjónustu á heilsugæslunni á Selfossi. Stuðningurinn var ómetanlegur og gerir okkur kleift að kaupa inn þær vörur sem við teljum nauðsynlegar til að veita skjólstæðingum okkar bestu mögulegu meðferð,“ segir Unnur Þormóðsdóttir, hjúkrunarstjóri á HSu.

Enn eru til nokkur dagatöl sem má kaupa í móttöku HSu á Selfossi eða með því að hafa samband við Unni með tölvupósti á unnur@hsu.is