Styrktarsýning listaverka til stuðnings Hinriki Sjørup

Hinrik Sjørup. Mynd/Úr einkasafni

Listamenn úr Myndlistarfélagi Árnessýslu standa saman að styrktarviðburði til stuðnings Hinriki Sjørup, 10 ára dreng frá Selfossi sem nýlega greindist með krabbamein og er alvarlega veikur.

Hinrik hélt ásamt foreldrum sínum til Svíþjóðar í vikunni til áframhaldandi meðferðar, þar á meðal beinmergsskipta.

„Með þessum viðburði viljum við sýna samstöðu, stuðning og leggja okkar af mörkum til að létta undir með fjölskyldunni á þessum krefjandi tíma,“ segir Berglind Björgvinsdóttir, formaður MFÁ, í samtali við sunnlenska.is. „Þetta er tækifæri til að eignast fallegt listaverk og um leið leggja mikilvægt framlag til fjölskyldu sem stendur frammi fyrir miklum áskorunum. Samstaðan skiptir máli og margt smátt gerir eitt stórt.“

Félagsmenn MFÁ hafa gefið listaverk sem verða til sölu og rennur allur ágóði óskertur til fjölskyldunnar. Hvert verk hefur lágmarksverð, en gestum er frjálst að greiða hærri upphæð ef þeir vilja leggja meira af mörkum.

Viðburðurinn fer fram sunnudaginn 1. febrúar frá kl. 12:00 til 17:00 á vinnustofu MFÁ í Sandvíkursetri á Selfossi. Einnig er hægt að kaupa verkin á netinu í gegnum heimasíðu félagsins. Verk verða sett inn daglega og hægt er að kaupa strax.

Fyrri greinFjölmenningarráðin funda um næstu hátíð
Næsta greinElsti starfsmaður sveitarfélags á Íslandi er 85 ára