Styrktarsjóður Svanhildar með sölubás á Kótelettunni

Í sölubásnum er hægt að kaupa lyklakippur sem Svanhildur býr til sjálf. Ljósmynd/Aðsend

Styrktarsjóður Svanhildar Óskar Guðmundsdóttur verður með sölubás á Kótelettuhátíðinni á Selfossi um helgina. Þar verða seldar lyklakippur sem Svanhildur býr til sjálf.

Svanhildur Ósk er fædd árið 1984, uppalin og búsett í Þorlákshöfn. Foreldrar hennar eru Ingibjörg Bjarney Georgsdóttir og Guðmundur Garðarsson. Hún á tvær dætur, 16 ára og 12 ára.

Veikindasaga Svanhildar er löng en árið 2021 greindist hún með nokkrar gerðir af æðaþjöppunarheilkennum (compression syndromes). Hún greindist með MALS (Median Arcuate Ligament Syndrome), May-thurner syndrome, Nutcracker syndrome, Pelvic congestion ásamt því að vera með EDS (Ehlers-Danlos syndrome) og fljótandi nýru (migrating kidneys).

Þar sem lítil kunnátta er hér á landi á þessum sjúkdómum gekkst Svanhildur undir aðgerð í Þýskalandi 2021 sem heppnaðist vel. Þetta var fyrsta skrefið í vegferð hennar að bata. Enn glímir hún þó við vandamál sem valda henni miklu verkjaástandi, erfiðleikum með að nærast sökum verkja og einkenna frá meltingarvegi, miklum einkennum frá taugakerfi, t.d. miklum pirringi, skjálfta, svima, heilaþoku ásamt minnkandi styrk í fótum og höndum og þarf hún stundum að notast við hjólastól.

Sjúkratryggingar synja umsókn um fjárhagsaðstoð
Svanhildur hefur lengi beðið eftir því að komast til Þýskalands í aðra aðgerð en Sjúkratryggingar Íslands hafa synjað umsókn hennar um fjárhagsaðstoð í tvígang. Hún stendur því frammi fyrir því að þurfa að greiða aðgerðina sjálf. Áætlaður aðgerðarkostnaður eru 5,5 milljónir fyrir utan ferðakostnað og uppihald.

Nú er svo komið að Svanhildur þarf að komast í aðgerðina sem fyrst til að hún eigi möguleika á betri lífsgæðum. Stefnt er að aðgerðinni í sumar. Þar mun Svanhildur gangast undir æðaígræðslu (skipta út celiac æðinni vegna mikilla þrenginga), fjarlægja mikið magn af örvef í kringum celiac æðina og hengja upp bæði nýrun til að auka blóðflæði.

Söfnunarreikningur fyrir Svanhildi
Fjölskylda Svanhildar hefur sett af stað söfnun fyrir hana og stofnað styrktarreikning í hennar nafni. Allir þeir sem sjá sér fært að styrkja Svanhildi geta lagt inn á reikning 0123-15-057954, kt. 260984-2689. Ef söfnunin gengur vel og næst að safna fyrir aðgerðarkostnaði mun það sem umfram safnast fara til góðgerðarmála.

Svanhildur Ósk Guðmundsdóttir. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinKaposi ráðinn þjálfari Hamars
Næsta grein„Gjörsamlega að farast úr spenningi“