Fimmtudagskvöldið 27. nóvember verða haldnir sérstakir styrktartónleikar á Sviðinu í miðbæ Selfoss fyrir fjölskyldu Þorsteins Birnis Þorsteinssonar.
Þorsteinn Birnir fæddist þann 14. október síðastliðinn en hann er þriðja barn þeirra Elínar Rutar Theodórsdóttur og Þorsteins Helga Sigurðarsonar. Á meðgöngu kom í ljós sjaldgæfur hjartagalli og aðeins tveggja daga gamall var Þorsteinn litli fluttur ásamt foreldrum sínum til Svíþjóðar. Hann hefur þegar gengist undir þrjár hjartaaðgerðir og mun þurfa stóra aðgerð í framtíðinni.
Hjartagallinn er svo einstakur að læknar erlendis hafa nefnt hann „Bears heart“, í höfuðið á Þorsteini Birni sjálfum, litlum stríðsmanni sem heldur áfram að koma öllum á óvart með ótrúlegri seiglu. Fjölskyldan er enn úti í Svíþjóð og ekki er ljóst hvenær þau komast heim.
Á tónleikunum á fimmtudagskvöld koma fram Króli, Fríða Hansen, Katla Njáls, Vilhjálmur B. Bragason og Ingi Þór. Allur ágóði af kvöldinu; miðasölu, bjórsölu og bolasölu fer beint til fjölskyldunnar.
Miðaverð er 3.500 krónur og er greitt við hurð. Húsið opnar 19:30 og tónleikarnir hefjast 20:30.
Allir sem geta eru hvattir til að leggja sitt af mörkum og leggja inn á styrktarreikning fjölskyldunnar. Reikn. 0150-26-018151, kt. 161097-3229.
