Styrktarganga á Ingólfsfjall 15. júní

Þorsteinn Jakobsson, fjallagarpur með meiru, hefur undanfarið unnið að tindaverkefni sem felst í því að klífa bæjarfjöll á Íslandi. Gengið verður á Ingólfsfjall laugardaginn 15. júní.

Þorsteinn hefur ákveðið að ljúka verkefninu í samstarfi við Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna á næstu 12 mánuðum og láta áheit í tengslum við göngurnar renna til SKB. Samstarfsverkefnið hefur hlotið nafnið Saman klífum brattann en baráttu krabbameinsveikra barna má oft og tíðum líkja við fjallgöngu sem stundum er erfið vegna bratta og klungurs en svo koma svæði inn á milli sem ekki eru jafnerfið yfirferðar.

Samstarfið hófst formlega með göngu á bæjarfjall Hafnfirðinga, Helgafellið, laugardaginn 9. mars sl. en síðan hefur verið gengið á Keili, Úlfarsfell, Akrafjall, Reynisfjall, Ennið við Ólafsvík, Drápuhlíðarfjall, Helgafell, Esju, Þorbjörn, Kerlingarfjöll og nú Ingólfsfjall laugardaginn 15. júní.

Lagt verður af stað frá Olís við Rauðavatn kl. 10.00 en gangan hefst frá bílastæðinu við malargryfjurnar sunnanundir Ingólfsfjalli kl. 10.40. Gangan tekur 2-3 klukkustundir. Allir eru velkomnir í gönguna sér að kostnaðarlausu en þátttakendum sem og öðrum er bent á að hægt er að styðja verkefnið með frjálsum framlögum inn á reikning SKB: 0301-26-3366 kt. 6305911129.

Meðfram þessum göngum er Þorsteinn að vinna að bók um fjöll og fjallgöngur sem kemur út á næsta ári. Hann ætlar að láta höfundarlaun sín fyrir þá bók renna til SKB.

Þorsteinn hefur síðustu ár helgað sig stuðningi við Ljósið, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þeirra. Árið 2009 sló Þorsteinn Íslandsmet þegar hann gekk sjö sinnum upp og niður Esjuna. Árið 2010 gekk hann á tíu tinda á tólf tímum og toppaði 365 fjöll á árinu. Árið 2011 gekk hann á ellefu tinda á fimmtán tímum og toppaði 400 fjöll á árinu. Svokallaðar ljósafossgöngur voru farnar niður Esjuna 2010, 2011 og 2012. Árið 2012 gekk Þorsteinn á tólf fjöll á sextán tímum.

Fyrri greinGuðmunda valin í landsliðhópinn
Næsta greinByggingu hótels í Reykholti frestað