Styrkleikarnir á Selfossi um helgina

Styrkleikar Krabbameinsfélags Íslands verða haldnir í fyrsta sinn á Selfossi þann 30. apríl og standa yfir í sólarhring. Um árlegan alþjóðlegan viðburð er að ræða sem fer fram á yfir 5.000 stöðum í yfir 30 löndum um allan heim. Hátt í 10 milljónir taka þátt á hverju ári og fer fjölgandi.

Krabbameinsfélag Íslands gekk til liðs við Global Relay for Life, samtök í eigu ameríska krabbameinsfélagsins og öðlaðist þar með rétt til að halda Styrkleika hér á landi eða viðburðinn Relay for Life eins og hann heitir í Bandaríkjunum. Íslenska nafnið á viðburðinum er Styrkleikarnir sem er orðaleikur og minnir okkur á styrkinn sem við finnum í samstöðunni, við það að ganga saman til að standa með fólki sem hefur verið snert af krabbameinum.

Styrkleikarnir eru fjölskylduviðburður sem snýst um að styðja við, heiðra eða minnast þeirra sem hafa fengið krabbamein. Leikarnir standa yfir í sólarhring, sem er táknrænt fyrir að það fæst engin hvíld frá krabbameini. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla aldurshópa. Viðburðurinn er öllum opinn og það kostar ekkert að vera með. Lagt er upp með að viðburðurinn sé fyrir alla og allir fari þetta á sínum hraða.

Heiðursgestir leikanna eru þeir sem greinst hafa með krabbamein og er sérstök dagskrá tileinkuð þeim. Ljósastund verður haldin á laugardagskvöldinu þar sem kveikt verður á kertum í sérstökum ljósapokum, sem þátttakendur hafa skreytt, og þeirra minnst sem við höfum misst og þakkað fyrir þá sem við höfum enn hjá okkur.

Lið af öllum stærðum og gerðum 
Þetta gengur þannig fyrir sig að fjölskyldur, vinahópar, fyrirtæki, félagasamtök eða aðrir skrá sig sem lið á styrkleikarnir.is og vinna svo saman að því að hafa fulltrúa á hreyfingu með boðhlaupskefli allan sólarhringinn. Allir geta svo skráð sig í Landsliðið, sem er öllum opið.

Góðar aðstæður á Selfossi
Styrkleikarnir eru haldnir í samvinnu við Krabbameinsfélag Árnessýslu á Selfossi og góðu samstarfi við Sveitarfélagið Árborg. Viðburðurinn verður í nýju Selfosshöllinni. Þar er gott aðgengi, mjög góð göngubraut og fallegt útivistarsvæði.

„Við viljum hvetja alla til að vera með þetta er einstök upplifun,“ segir Eva Íris verkefnastjóri Styrkleikana sem hefur bæði skipulagt og tekið þátt í viðburðinum í Noregi.

Styrkleikarnir eru haldnir af sjálfboðaliðum til að sýna stuðning, safna fé til rannsókna á krabbameinum og til þess að veita krabbameinsgreindum ráðgjöf og þjónustu.

  • Skráning og allar nánari upplýsingar um Styrkleikana má finna hér.

Fyrri greinÞankar um ferðaþjónustu í Ölfusi og á landsvísu
Næsta greinTæplega tveggja milljarða króna halli hjá Árborg