Styrkir stöðu Skaftárhrepps stórkostlega

„Þetta er dásamlegustu fréttir sem við höfum fengið lengi,“ segir Eygló Kristjánsdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps um þá fyrirætlan stjórnvalda að veita 870 milljónum króna til uppbyggingar Þekkingaseturs á Kirkjubæjarklaustri á næstu þremur árum.

Bygging setursins er liður í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar en tilkynnt hefur verið að fjármagn til áætlunarinnar til næstu þriggja ára hafi verið tryggt. Þó eru þeir fyrirvarar gerðir að áætlunin verði samþykkt sem hluti af fjárlögum Alþingis fyrir 2013.

„Við gerum ekki ráð fyrir því að fyrst um sinn komi fólk alveg í hrönnum og setjist að hjá okkur. Við bindum vonir um að þetta vindi upp á sig og verði stærra og meira,“ sagði Eygló í samtali við Sunnlenska.

„Við erum alls staðar í varnarbaráttu og búin að ganga í gegnum eld og brennistein á síðustu árum í fólksfækkun og erfiðum aðstæðum. Þannig að fá svona ljós er bara dásamlegt,“ segir sveitarstjórinn.

Byggingin sem um ræðir verður alls 1500 fermetrar að stærð, á einni hæð með fimmtán skrifstofurýmum. Búið er að gera drög að teikningu fyrir húsið og vonast Eygló til þess að það verði klárt í síðasta lagi árið 2015.

Í helmingi hússins verður gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs og svæði tileinkað listamanninum Erró, sem er fæddur og uppalinn á Klaustri, í um fjórðungi hússins. Auk þess verða Kirkjubæjarstofa, Bændasamtökin, Landgræðslan, háskólinn, Katla Jarðvangur, upplýsingamiðstöð ferðamanna og Skaftárhreppur með rými í húsinu.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu

Fyrri greinSigurganga Hamars heldur áfram
Næsta greinAð kortleggja hið ósýnilega