Stutt í lengstu sviflínu landsins

Það styttist í uppsetningu kílómetra langrar zip-línu frá Kömbum og niður að Reykjadal, ofan við Hveragerði, en forsvarsmenn Kambagils ehf stefna að því að sviflínan verði tekin í notkun fyrir lok ársins.

Á síðasta fundi bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar var samþykktur lóðarleigusamningur við Kambagil ehf. Sviflínan kemur til með að fylgja Svartagljúfri frá efstu beygju í Kömbunum alveg niður að kaffihúsinu við upphaf gönguleiðarinnar inn í Reykjadal.

Kambagil kemur til með að gera stíga frá göngubrú á Jókutanga til efri turns zip-línunnar og vegslóða frá Hofmannaflöt að Svartagljúfri. Á bæjarstjórnarfundinum óskuðu fulltrúar D-listans eftir því að hafist verði handa við útboð og framkvæmd á bílastæði austan megin núverandi stæða, sem voru á framkvæmdaáætlun bæjarins á þessu ári.

Sviflínan verður sú lengsta hér á landi og mun eflaust vekja mikla athygli en í tilkynningu frá bæjarstjórn segir að hún sé einstaklega ánægð með lendingu málsins.

Fyrri greinAllar varnir lágu niðri
Næsta greinEnn einn vinnuhópurinn stofnaður