Stútar á stolnum bíl

Lögreglan á Selfossi fékk ábendingu um ölvunarakstur um kl. 2 í nótt. Tveir ungir karlmenn voru handteknir og gistu þeir fangageymslur. Annar ökumaður ók á kyrrstæðan bíl og þaðan inn í garð snemma í morgun.

Þegar lögregla kom á vettvang voru mennirnir farnir úr bílnum og könnuðust ekkert við að hafa ekið honum. Þeir voru mjög ölvaðir og því voru þeir færðir í fangageymslur og verða yfirheyrðir í dag. Auk þess að vera grunaðir um ölvunarakstur eru þeir taldir hafa tekið bifreiðina ófrjálsri hendi.

Annar ökumaður lauk bílferð sinni í Þorlákshöfn með öðrum hætti en venja er til á sjöunda tímanum í morgun. Ekki vildi betur til en svo að hann keyrði á kyrrstæða bifreið og þaðan inn í næsta garð. Lögregla fór á staðinn og leikur grunur á að um ölvunarakstur hafi verið að ræða.

Fyrri greinÖruggt hjá KFR
Næsta greinSló til sjúkraflutningamanns