Stúlkur héldu samstöðufund í ML

Frá samstöðufundinum í ML. Ljósmynd/Jóna Katrín Hilmarsdóttir

Stúlkur á fyrsta ári í Menntaskólanum að Laugarvatni héldu samstöðufund í morgun í tilefni af kvennaverkfallinu.

„Nemendum og starfsfólki ML var í sjálfsvald sett hvernig þeirra viðbrögð yrðu við deginum. Þessar ungu stúlkur á myndinni eru í fyrsta bekk í ML og tilkynntu að þær myndu ganga út kl. 10 og efna til samstöðufundar á setustofu heimavistar sinnar,“ segir Jóna Katrín Hilmarsdóttir, skólameistari í ML, í samtali við sunnlenska.is.

„Dagskrá fundarins var að senda kveðju á Kvennfrídagssíðuna og horfa svo saman á myndbönd um sögu Kvennafrídagsins, rauðsokkur og fleira. Skólameistari kom við á fundinum og hvatti flottar baráttukonur til dáða og tók mynd. Ég er svo stolt af þessum flottu, sterku nemendum.“

„Einhverjar áttu svo far til Reykjavíkur um hádegið en eldri nemendur stefndu margar á samstöðufundinn á Arnarhóli sem hófst kl. 14. Starfsfólk var einnig virkt á deginum bæði hér á Laugarvatni þar sem átti að hittast í Héraðsskólanum, á fundi á Flúðum eða í Reykjavík, á viðburði viðburðanna,“ segir Jóna Katrín að lokum.

Fyrri greinGöngufólk í vandræðum á Ingólfsfjalli
Næsta greinFjórir framtíðarleikmenn semja við Selfoss